
Verkefnið Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna – mál allra hlaut styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála og er hluti af vitundarvakningu Móðurmáls – samtaka um tvítyngi um mikilvægi þess að viðurkenna og virkja öll þau tungumál sem eru hluti af lífi barna og ungs fólks á Íslandi.
Einn af afrekstrum verkefnisins er verkfærakista með kennsluhugmyndum. Hugmyndin með verkfærakistunni er, í anda Framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda, að vekja athygli á leiðum til að börn með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu í virkri þátttöku og samtali um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Kristín R. Vilhjálmsdóttir setti saman verkfærakistuna og í henni má finna almennt efni um heimsmarkmiðin frá ýmsum aðilum og einnig kennsluefni þróað af Kristínu og Kristrúnu Maríu Heiðberg fyrir Móðurmál – samtök um tvítyngi vegna Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna – mál allra.
Einkunnarorð Heimsmarkmiðanna eru Leave no one behind eða Skiljum engan eftir. Starfsemi samtakanna Móðurmáls er í góðu samræmi við þau orð og byggir verkefnið Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna – mál allra einmitt á að sem flestir geti tekið þátt, farið á hugarflug hvað varðar að gera heiminn betri og komið skoðunum sínum á framfæri.

Móðurmál – samtök um tvítyngi þakkar Þróunarsjóð innflytjendamála innilega fyrir styrkinn, nemendum og kennurum í Fellaskóla og Borgarbókasafnið fyrir samstarfið og Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fyrir innblástur í ferlinu. Efnið er að finna hér og er öllum opið að notfæra sér það.