Lög

1.gr. Nafn

Samtökin heita Móðurmál — samtök um tvítyngi

2.gr. Heimili

Heimili samtakanna og varnarþing er í Háaleitisbraut 11-13, 108 Reykjavík.

3.gr. Tilgangur, markmið og leiðir

Hlutverk samtakanna er að styðja við bakið á móðurmálshópum, móðurmálskennurum og leiðbeinendum. Markmiðum sínum hyggjast samtökin ná meðal annars með því að:
  • Fræða foreldra, stofnanir og samfélagið um mikilvægi móðurmálskennslu, um fjölmenningu, inclusive approach á öllum skólastigum, o.s.frv.
  • Taka þátt í menningarviðburðum
  • Fræða móðurmálskennara og standa að endurmenntun þeirra
  • Efla samvinnu um móðurmálskennslu við mennta- og menningarstofnanir
  • Efla rannsóknir sem tengjast starfseminni
  • Efla virkt fjöltyngi í samfélaginu
  • Þróa móðurmálskennslu og hafa samstarf við önnur samtök og félög innanlands og utan sem starfa í sama eða sambærilegum tilgangi

4.gr. Aðild

Hver móðurmálshópur er meðlimur í samtökunum og staðfestir aðild sína með árlegu félagsgjaldi í upphafi hvers skólaárs. Ársgjald er ákveðið hverju sinni á aðalfundi. Samtökin skulu halda félagaskrá.

5.gr. Stjórnskipulag

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum samtakanna. Hann skal halda eigi síðar en 20. júní ár hvert. Aðalfundur skal auglýstur með 10 daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Allir virkir móðurmálshópar eiga rétt á setu á aðalfundi. Hver virkur hópur er með eitt atkvæði. Dagskrá aðalfundar skal vera:
  • Kosning fundarstjóra og fundarritara
  • Skýrsla stjórnar um störf og starfsemi samtakanna á liðnu starfsári
  • Endurskoðaðir reikningar samtakanna lagðir fram
  • Starfsáætlun næsta starfsárs lögð fram
  • Lagabreytingar
  • Ákvörðun um félagsgjald
  • Kosning formanns og annarra stjórnarmanna
  • Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara ef kostur er
  • Umræður um helstu stefnumál og markmið
  • Önnur mál
*Heimilt er að breyta röð dagskrárliða á aðalfundi

6.gr. Stjórn samtakanna

Stjórn samtakanna skipa fimm einstaklingar úr stjórnum virkra móðurmálshópa þar með talinn formaður. Þó er leyfilegt að einn stjórnarmeðlimur þó ekki formaður kemur utan móðurmálshópa. Formaður er kosinn sérstaklega á hverjum aðalfundi en aðrir stjórnarmenn í einu lagi og til tveggja ára í senn. Stjórn skal vera skipuð varaformanni, gjaldkera, ritara og einum meðstjórnanda auk formanns. Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund.
Formaður boðar stjórnarmenn á stjórnarfundi eigi sjaldnar en átta sinnum á ári og oftar ef þurfa þykir. Stjórn samtakanna annast framkvæmd starfseminnar sem aðalfundur hefur samþykkt. Formaður og gjaldkeri hafa sameiginlegan rétt til að skrifa undir skjöl fyrir hönd félagsins. Stjórn skal halda gerðabók þar sem bókuð eru öll mál sem tekin eru fyrir og afgreiðsla þeirra.

7.gr. Hlutverk stjórnar

Stjórn fer með æðsta vald þess milli aðalfunda. Stjórn tekur allar meiri háttar og óvanalegar ákvarðanir fyrir hönd samtakanna, t.d. inntöku nýrra móðurmálshópa, markar stefnu og framtíðarsýn og fylgir eftir ákvörðunum aðalfundar. Stjórn ber ábyrgð á því að rekstur samtakanna sé í eðlilegum farvegi og í samræmi við þær skuldbindingar sem samtökin hafa gengist undir. Í því felst að ákveða fyrirkomulag á daglegum rekstri samtakanna, ráða starfsmenn eftir því sem þörf er á og afla sjálfboðaliða. Stjórn skal hafa eftirlit með öllum rekstri samtakanna og sjá um að skipulag og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn skal sjá um að bókhald samtakanna sé í samræmi við lög og reglur. Hún getur skipað sérstakar nefndir til að sinna afmörkuðum verkefnum, t.d. tölvuteymi, fræðsluteymi, viðburðateymi o.s.frv.

8.gr. Fulltrúaráð

Fulltrúaráð er vettvangur móðurmálshópanna og stjórnar samtakanna til samráðs og samvinnu. Fulltrúaráð skal skipað einum fulltrúa frá hverjum móðurmálshóp og skal tilkynna til stjórnar hver er þeirra fulltrúi og varamaður, ef hann er til staðar, í byrjun hvers skólaárs, eigi síðar en 1. október. Fundir stjórnar með fulltrúaráði skulu vera boðaðir með tryggilegum hætti og minnst viku fyrirvara sé þess kostur. Formaður samtakanna boðar til fundar. Fulltrúaráð skal funda a.m.k. fjórum sinnum á starfsárinu. Meirihluti viðstaddara fulltrúa getur gefið sitt álit í málefnum sem stjórnin óskar eftir. Fulltrúaráð hefur ekki endanlegt ákvörðunarvald.

9.gr. Fjármál

Tekjur samtakanna eru: félagsgjöld, ef þau eru ákveðin á aðalfundi, styrkir og önnur fjáröflun. Starfstímabil, reikningstímabil og fjárhagsár samtakanna er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert. Samtökununum er heimilt að taka við styrkjum frá opinberum aðilum og öðrum sem vilja styrkja þau. Ekki er heimilt að fá lán, né sækja um kreditkort, nema skriflegt samþykki allrar stjórnarinnar liggi fyrir.

10.gr. Slit félagsins

Ákvörðun um slit samtakanna skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til aðildarfélaga Móðurmáls.

11.gr. Lagabreytingar

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi samtakanna enda fái breytingartillaga 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur að breytingum laganna þurfa að berast stjórn samtakanna ekki síðar en 15 dögum fyrir auglýstan aðalfund. Tillögur til breytinga á lögum þessum, sem stjórn samtakanna hyggst leggja fram, skal kynna um leið og boðað er til aðalfundar, eða 10 daga fyrir aðalfund. Siðareglur Móðurmáls eru hluti af lögum þessum.
Lög þessi öðlast þegar gildi og um leið falla úr gildi lög félagsins sem sett voru á aðalfundi 2015.

Samþykkt á aðalfundi félagsins 8.5.2019

modurmal signature