Tungumálakortið | Language Map

Í dag, 21. febrúar, er Alþjóðadagur móðurmála. Af því tilefni verður opnað nýtt Tungumálakort þar sem birtast niðurstöður leitar að tungumálaforða barna og ungmenna á Íslandi. Blásið var til leitarinnar í janúarbyrjun en þetta er í þriðja sinn sem tungumál í skólum landsins hafa verið kortlögð. Starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla landsins var hvatt til þess að spjalla við börnin og spyrja þau um tungumálin þeirra. Markmiðið var að kortleggja öll tungumál sem töluð eru af börnum og ungmennum í leik- og grunnskólum landsins og nú í fyrsta sinn einnig í framhaldsskólum. Tilgangurinn er að vekja jákvæða umræðu um tungumál og fjöltyngi en að hafa fleiri en eitt tungumál á valdi sínu getur aukið lífsgæði og auðgað tilfinningalíf.

Leitin að tungumálunum var unnin í samstarfi Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Miðju máls og læsis, MEMM – Menntun, móttaka, menning, Móðurmáls – samtaka um tvítyngi, Menningarmótsverkefnisins og Samtaka tungumálakennara á Íslandi (STÍL). Áður voru tungumálin kortlögð í íslenskum leik- og grunnskólum á árunum 2014 og 2021.

Alls bárust 242 svör úr leik-, grunn- og framhaldsskólum en í allt hefur um þriðjungur allra skóla á landinu tekið þátt í verkefninu, auk nokkurra annarra stofnana og einstaklinga. Nú hafa safnast 101 tungumál sem eru örlítið fleiri en síðast. Áhugavert er að alls 16 tungumál sem söfnuðust síðast eru ekki með í ár. Ef litið er til fyrri söfnunar má ætla að á Íslandi hafi átt heima hið minnsta 117 tungumál síðustu tíu ár. Einnig er athyglisvert að á Íslandi tala börn a.m.k. fjögur táknmál: íslenskt, írskt, litháískt og úkraínskt.

Margir leik-, grunn- og framhaldsskólar skráðu yfir 20 tungumál og því má segja að tungumálafjölbreytileiki blómstri í mörgum skólum. Þar sem mest lætur eru allt að fjörutíu tungumál skráð.

Frétt um tungumálaleit 2025 má lesa í heild sinni hér.

English version

Í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins 21. febrúar 2021 var blásið til tungumálaleitar til að kortleggja tungumál töluð af börnum og unglingum á leik- og grunnskólaaldri og um leið stuðla að jákvæðri umræðu um tungumál og fjöltyngi. Markmiðið er ekki síst að skapa námsmenningu þar sem börn og unglingar finna fyrir stolti yfir tungumálaauði sínum og að öll börn átti sig á mikilvægi tungumálsins fyrir sjálfsmynd og tilfinningalíf hvers og eins. 

109 tungumál á gagnvirku Íslandskorti

Árið 2021 voru skráð 95 tungumál sem börn og unglingar á Íslandi þekkja, sem er tveimur tungumálum fleira en kom í ljós þegar tungumálaforðinn var kortlagður árið 2014. Í ár komu hins vegar 14 ný tungumál í ljós, sem rötuðu ekki á kortið árið 2014. Fjöldi  tungumála í íslenskum leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi er þannig kominn upp í 109. Tungumálin er að finna á Íslandskorti tungumálanna hér fyrir ofan.

Þátttaka og leiðarljós

Þátttaka í kortlagningu tungumálanna var afar góð. Þá tóku í ár í fyrsta sinn þátt stofnanir á vettvangi frítímans, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar. Þannig fór fram umræða um mikilvægi móðurmálsins með börnum og unglingum  um land allt sem er höfuðmarkmið leitarinnar að tungumálaforðanum.

Kynningarmyndband

Með því að fjalla um mikilvægi móðurmálsins og tungumála yfirleitt eru höfð í heiðri gildi Barnasáttmálans, Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, menntastefnu Reykjavíkurborgar ásamt drögum stjórnvalda að stefnu um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála og menningarbakgrunn.   

Tungumál í íslenskum skólum 2021

Stefna stjórnvalda um stuðning við móðurmál 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf árið 2020 út Leiðarvísi um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi. Leiðarvísirinn inniheldur fjölbreyttar leiðir og verkefni til að styðja við tungumál í skóla- og frístundastarfi og heima fyrir, skilgreiningar hugtaka og gagnlegar slóðir með fróðleik.

Samstarf um verkefnið frá 2014 til 2021

Menntamiðja, Tungumálatorg, menntavísindastofnun HÍ, Menningarmót – Fljúgandi teppi, skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, og Móðurmál – samtök um tvítyngi stóðu í sameiningu að leitinni að tungumálum barna og unglingar árið 2021. Með því endurvöktu þessar stofnanir Íslandskort – leitin að tungumálaforðanum frá árinu 2014 þar sem 93 tungumálum var safnað. Að því verkefni komu meðal annars UNESCO á Íslandi, Vigdísarstofnun og Borgarbókasafn. Sjá myndband með ávarpi Vigdísar Finnbogadóttur, velgjörðarsendiherra tungumála UNESCO.

Samstarfsaðilar:

Menningarmót – Fljúgandi teppi

Menntavísindastofnun

Móðurmál – samtök um tvítyngi

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar

Tungumálatorg

Menntamiðja

Umfjöllun

Mannlegi þátturinn, viðtal v. Kristínu R. Vilhjálmsdóttur

Grein í Morgunblaðinu, viðtal v. Kristínu R. Vilhjálmsdóttur

Frétt á vef RÚV

Frétt á vef Fréttablaðsins

Vefur Háskóla Íslands, viðtal v. Renötu Emilsson Peskova

Krakkafréttir, raddir fjöltyngdra barna

Samfélagið, viðtal v. Renötu Emilsson Peskova og Kristínu R. Vilhjálmsdóttur