Þann 22. ágúst var undirritaður samstarfssamningur á milli skóla- og frístundasviðs og samtakanna Móðurmáls um afnotarétt af húsnæði SFS í Fellaskóla og leikskólunum Ösp og Holti til að kenna tvítyngdum börnum á laugardögum á þessu skólaári.
Níu tungumálahópar munu hittast í nýju húsnæði, en um 250 börn læra móðurmál sín undir regnhlíf Móðurmáls. Áður hafa samtökin haft aðstöðu til móðurmálskennslu í Hagaskóla og leikskólanum Hagaborg en með undirritun þessa samstarfssamnings er brotið blað í samstarfi Reykjavíkurborgar og Móðurmáls með mótframlagi samtakanna sem felst í fræðslu til foreldra og skólasamfélagsins um mikilvægi móðurmáls, margfalda kosti virks tvítyngis, fræðilegar undirstöður, tengdar rannsóknir o.fl.
Það hefur verið megintilgangur Samtakanna Móðurmáls frá stofnun árið 1993 að viðhalda og kenna tvítyngdum börnum móðurmál þeirra. Mikilvægt er að í leik-, grunnskóla-og frístundastarfi sé móðurmál barna viðurkennt og leitað leiða til að vinna með og byggja á kunnáttu barna í móðurmáli.
Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (1989) sem nú hefur verið lögfestur á Íslandi er kveðið á um mikilvægi þess að viðurkenna kunnáttu barna í móðurmáli sínu og veita þeim tækifæri til að viðhalda því auk þess sem í aðalnámskrá Grunnskóla (2011) er lögð áhersla á að nemendur þrói með sér „virkt tvítyngi“ þ.e. haldi áfram að þróa og viðhalda móðurmáli um leið og þau ná tökum á íslensku. Lykilinn að því að börn þrói með sér virkt tvítyngi er falinn í því að veita börnum tækifæri og aðgang að markvissri og metnaðarfullri móðurmálskennslu um leið og leitað er leiða til að efla samstarf foreldra og kennara um þróun máls og læsis.
Undirritun samningsins er stórt skref í átt að formlegri viðurkenningu móðurmálskennslu og eru samstarfsaðilar afar stoltir og vongóðir um framtíð hennar.