Opnið glugga að heiminum í desember
Samtökin Móðurmál kynna til leiks skemmtilegt jóladagatal: Heimsins jól – fjöltyngt dagatal. Á hverjum degi í desember verður hægt að opna fyrir jólakveðju á einu af þeim 7000 tungumálum sem töluð eru í heiminum.
Í skólastarfi verður hægt að nota jóladagatalið sem hluta af vitundarvakningu um tungumál og þá auðlind sem felst í því að geta talað fleiri en eitt eða tvö tungumál. Jóladagatalið verður að finna á vef og samfélagsmiðlum undir “Móðurmál – samtök um tvítyngi”.
Það er öllum opið að dreifa því og nota í því samhengi sem gæti átt við. Kennarar eru hvattir til að hefja alla skóladaga í desember með því að opna “glugga” að heiminum, bera saman tungumálin, skoða hvar þau eru töluð o.s.frv. Hægt verður að láta börn og ungmenni skreyta veggi skólans með jólakveðjum á mismunandi móðurmálum.
Jóladagatalinu fylgja leiðbeiningar og hugmyndir um notkun þess í kennslustofunni. Tilgangurinn er m.a að vekja athygli á því að fjölbreytni og fjöltyngi eru mikið ríkidæmi en sú áhersla tengist bæði Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og Barnasáttmálanum.
Heimsins jól – fjöltyngt jóladagatal er á vegum Samtakanna Móðurmáls og birtist í samstarfi við íslensku UNESCO nefndina, Vigdísarstofnun, Reykjavíkurborg, Miðju máls og læsis, Hólabrekkuskóla og Fellaskóla.
Kristín R. Vilhjálmsdóttir er hugmyndasmiður jóladagatalsins og vinnur verkefnið fyrir Samtakanna Móðurmál.
Umfjöllun:
Vigdísarstofnun
https://vigdis.hi.is/is/heimsins-jol-fjoltyngt-joladagatal
Reykjavíkurborg
https://reykjavik.is/frettir/joladagatal-24-tungumalum
Kennarasamband Íslands
https://www.ki.is/um-ki/utgafa/frettir-og-pistlar/frettir/2023/joladagatal-a-24-tungumalum/
Menntamálastofnun