Bókasafn Móðurmáls

Bókasafnið Móðurmáls samanstendur af safnkosti (bækur, tímarit, dvd, cd, hljóðbækur o.fl.) ýmsra móðurmálsskóla innan Móðurmáls. Bækur eru aðallega barna- og unglingabækur, þó sumir móðurmálsskólar eigi líka bækur fyrir fullorðna, kennsluefni og annað fræðsluefni.

Eins og staðan er í dag, hefur bókasafnið ekki einn sama stað. Hver og einn skóli geymir sér um að útvega sjálfur stað fyrir sitt efni. Móðurmál á einnig sinn safnkost, eru það aðallega barnabækur sem samtökunum hefur verið gefið og eru þær ekki bundnar við ákveðið tungumál. Móðurmál getur því átt bækur á spænsku líkt og spænski móðurmálshópurinn.

Markmið bókasafns Móðurmáls er að gera safnkostinn sýnilegan og auka aðgengi fyrir börn af erlendum uppruna, t.d. með skráningu í landskerfi bókasafna Gegni. Með því býðst börnum af erlendum upppruna tækifæri á að fá bækur lánaðar með millisafnaláni í skólann sinn. Þetta er í augnablikinu bara bundið við Reykjavík, en við stefnum að því að reyna að veita öllum börnum sama tækifæri. Þau geta því bætt lestarfærni sína og markmiðið er í samræmi við þjóðarsáttmála um læsi.

Byrjað var að skrá safnkostinn í sjálfboðavinnu í desember 2016. Móðurmál er heppið að hafa sjálfboðaliða innan samtakanna sem er jafnframt með skrásetjararéttindi. Áætlað er að safnkosturinn sé um 8000 þúsund eintök og bætist jafnt og þétt í hann. Um miðjan ágúst 2017 var búið að skrá 1650 titla eða um 1830 eintök. Safnkosturinn er allur skráður undir nafni Móðurmáls og er hægt að skoða hann með því að fara inn á leitir.is og nota leitarorðið MODPG.

Móðurmál leitar nú að samastað fyrir safnkostinn þar sem öll tungumál væru aðgengileg á einu stað bæði fyrir börn og fullorðna.