Gerum það að leik að leita að tungumálaforða barna og unglinga á Íslandi.
Í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins 21. febrúar 2021 fer af stað verkefnið og könnunin „Íslandskort – leitin að tungumálaforðanum 2021“.
Hugmyndin er að kortleggja öll tungumál töluð af börnum í leik- og grunnskólum landsins til þess að vekja jákvæða umræðu um tungumál og fjöltyngi í barna- og unglingahópum. Tilgangurinn er einnig að ýta undir veruleika þar sem börn og ungmenni finna að það að tjá sig á fleiri tungumálum en á íslensku getur aukið lífsgæði og tilfinningalíf þeirra og að þau finni fyrir stolti yfir að hafa fleiri en eitt tungumál á valdi sínu.
Eins og við öll vitum eykur jákvæð sjálfsmynd námsgleði og -möguleika.
Menntamiðja, Tungumálatorg, Menntavísindastofnun HÍ, Menningarmót – Fljúgandi teppi, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, og Móðurmál – samtök um tvítyngi standa fyrir verkefninu og endurvekja þannig Íslandskort – leitin að tungumálaforðanum frá árinu 2014 þar sem 93 tungumálum var safnað.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti gaf síðastliðið vor út Leiðarvísi um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi sem inniheldur fjölbreyttar og skemmtilegar leiðir til að styðja við tungumál, gagnlegar slóðir með fróðleik og frekari verkefnum ásamt því að útskýra í stuttu máli hugtök móðurmál, virkt fjöltyngi, og íslenska sem annað mál.
Með því að taka þátt í verkefninu vinna leikskólar og grunnskólar að atriðum sem snerta Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, Barnasáttmálann, menntastefnur sveitarfélaga og drög að stefnu um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála og menningarbakgrunn.
Afrakstur könnunarinnar verður gagnvirkt Íslandskort þar sem hægt verður að skoða tungumálaforðann á hverjum og einum stað. Niðurstöður könnunarinnar verða m.a. birtar á nýjum vef menntamiðju. Hægt verður að fylgjast með ferlinu á Facebooksíðu samtakanna Móðurmáls og hjá öðrum samstarfsaðilum.
Gleðjumst yfir öllum tungumálaauði landsins!