Verkfærakista til að virkja fjölbreytt tungumál í kennslu um heimsmarkmiðin
Verkefnið Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna – mál allra hlaut styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála og er hluti af vitundarvakningu Móðurmáls – samtaka um tvítyngi um mikilvægi þess að viðurkenna og virkja öll þau tungumál sem eru hluti af lífi barna og ungs fólks á Íslandi. Einn afrakstur verkefnisins er þessi verkfærakista með kennsluhugmyndum.
Hugmyndin með verkfærakistunni er, í anda Framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda, að vekja athygli á leiðum til að börn með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn “geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu” í virkri þátttöku og samtali um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Kristín R. Vilhjálmsdóttir setti saman verkfærakistuna og í henni má finna almennt efni um heimsmarkmiðin frá ýmsum aðilum og einnig kennsluefni þróað af Kristínu og Kristrúnu Maríu Heiðberg fyrir Móðurmál – samtök um tvítyngi vegna Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna – mál allra.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016-2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs á gildistímanum. Aðalsmerki heimsmarkmiðanna er að þau eru algild og því hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra. Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.
www.heimsmarkmidin.is
Einkunnarorð Heimsmarkmiðanna eru Leave no one behind eða Skiljum engan eftir. Starfsemi samtakanna Móðurmáls er í góðu samræmi við þau orð og byggir verkefnið Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna – mál allra einmitt á að sem flestir geti tekið þátt, farið á hugarflug hvað varðar að gera heiminn betri og komið skoðunum sínum á framfæri.
Verkefnin sem eru að finna hér hafa að hluta til verið unnin með nemendum á miðstigi í Fellaskóla haustið 2024. Við þökkum nemendum, kennurum og foreldrum fyrir samstarfið.
Móðurmál – samtök um tvítyngi þakkar Þróunarsjóð innflytjendamála innilega fyrir styrkinn og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fyrir innblástur í ferlinu.
Hér má sjá myndband með upplifun nemenda, foreldra og skólastjóra ásamt innlit í vinnu út frá kennsluhugmyndum í verkfæraskistunni.
Markmið
Markmiðið með efninu er fyrst og fremst að veita aðgengi að hugmyndafræði og upplýsingum um heimsmarkmiðin á tungumálum sem börn og foreldar kunna. Með inngildandi kennsluaðferðir að leiðarljósi er það hugmyndin að virkja fjölbreytt tungumál nemenda auk íslensku þegar kemur að því að pæla í og finna lausnir á málefnum heimsmarkmiðanna.
Markhópur
Kennsluhugmyndirnar eru aðallega hugsaðar fyrir kennara á miðstigi grunnskólans sem og kennara sem standa fyrir móðurmálskennslu. Það er þó hægt að aðlaga efnið, þannig að það nýtist fleiri aldurshópum. Verkefnin henta í almennri kennslu, í þverfaglegum þemum og ýmsum fögum.
Fjölbreytt tungumál í lærdómsferlinu
Við mælum með að öll tungumál sem geta stutt við lærdómsferli nemandans séu virt og virk í verkefnunum þó svo að það sé ekki tekið sérstaklega fram á öllum stöðum. Það á t.d. við verkefni sem fjalla um heimsmarkmiðin almennt.
Hægt er að hafa blaðsíðu tvö í verkefnaskjalinu Ég, við og heimsmarkmiðin til hliðsjónar með nemendum áður en er lagt af stað í ferlið. Þar er opnað á hvaða tungumál kæmi til greina á hverjum tíma.
Svör nemenda þegar kemur að notkun tungumála voru fjölbreytt, eins og einn nemandi finnst best að skrifa á íslensku og ensku, lesa á ensku og íslensku, kemur skoðun sinni best til skila á bisaya, hugsar best á ensku og tagalog, fær hugmyndir á ensku, þróar best hugmyndir með öðrum á íslensku og ensku.
Kennarar, 6. bekk
Verkefni fyrir nemendur
Eftirfarandi verkefni eru sum tengd almennri þekkingu um heimsmarkmiðin og önnur leggja áherslu á útvalin heimsmarkmið.
Efnið Ég, við og heimsmarkmiðin var þróað sérstaklega fyrir verkefnið Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna – mál allra og hafa sum verkefnin verið gerð með nemendum í Fellaskóla. Efnið felst í verkefnablöðum sem hægt er að prenta hvert fyrir sig eða sem verkefnahefti. Áður en kennarar notfæri sér þau verkefni, er mælt með að vera með almenna kynningu á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Hér að neðan er efni sem er tilvalið að nota í þeim tilgangi.
Til að tryggja skilning sem flestra nemenda á heimsmarkmiðunum, þá bíður verkfærakistan upp á möppu með markmiðunum á um 30 tungumálum. Einnig er hægt að finna lista yfir fjölbreytt efni og upplýsingar á mörgum tungumálum í verkfærakistunni.
Nemendaverkefni um heimsmarkmiðin og tenging við fjölbreytt tungumál
Verkefni eftir Kristrúnu Maríu Heiðberg
Almennt verkefni um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Nemendur kynna sér heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og vinna verkefni. Um er að ræða verkefni þar sem kallað er eftir virkni nemenda og hvað hægt er að gera til að vinna að heimsmarkmiðunum.
Kahoot spurningaleikur um heimsmarkmiðin
Einfaldur spurningaleikur fyrir þá sem eru að byrja að læra um heimsmarkmiðin. (ATH! Kennari eða nemandi fer inn á sínum Kahoot-aðgangi, leitar eftir efninu, Heimsmarkmið Fellaskóli, og byrjar leikinn).
Álftin og dósin
Nemendur vinna verkefni um álft sem festist í gosdós. Ætlunin er að vekja nemendur til umhugsunar um ábyrgð og afleiðingar og að tengja heimsmarkmiðin við okkar daglega líf. Hvaða afleiðingar getur það t.d. haft ef við fleygjum rusli út í náttúruna?
Verkefnahefti og myndbönd eftir Kristínu R. Vilhjálmsdóttur
Ég, við og heimsmarkmiðin
Verkefnahefti til útprentunar með fjölbreyttum verkefnum þar sem nemendur máta sig við mismunandi heimsmarkmið og velta fyrir sér notkun tungumála þeirra í námsferlinu.
Hér má sjá myndband sem sýnir dæmi um notkun verkefnanna á blaðsíðu 15 og 16 um drauma barnanna um betri heim og skref til aðgerða.
Okkur fannst verkefnið um drauma og skref sniðugt og skemmtilegt, sem sýndi kunnáttu og skilning krakkana á hvað þarf að bæta í heiminum. Einnig sköpuðust skemmtilegar umræður hjá krökkunum og unnu á skapandi hátt.
Kennarar, 6. bekk