Samtökin Móðurmál urðu til árið 1993 að frumkvæði foreldra, en voru stofnuð formlega árið 2001. Tilgangur samtakanna er að skapa vettvang fyrir móðurmálskennslu og umræðu um tvítyngi, styðja við móðurmálskennara, fræða samfélagið um móðurmálskennslu, og ekki síst að hvetja foreldra til að gefa börnum sínum tækifæri til að kynnast báðum (öllum) móðurmálum.
Í ár starfa eftirfarandi hópar innan Móðurmáls: enska, filippseyska, franska, ítalska, japanska, litháíska, portúgalska, rússneska, serbneska, spænska, sænska, tékkneska, twi og ewe (bæði í Ghana), en Móðurmál hefur einnig samvinnu við Pólska skólann.
Þegar Samtökin héldu upp á 10 ára afmæli fyrir tveimur árum, þökkuðu þau verndara sínum, Vigdísi Finnbogadóttur, fyrir stuðninginn öll þessi ár. Móðurmál eru foreldrarekin samtök en nýir móðurmálshópar spretta upp eftir þörfum. Samtökin hafa gott samstarf við Reykjavíkurborg, Borgarbókasafn Reykjavíkurborgar, Gerðuberg, Hagaskóla, Hagaborg og fleiri stofnanir. Móðurmálskennsla fer fram að mestu leyti á laugardögum í Hagaskóla og Hagaborg, en hóparnir starfa einnig í Neskirkju, Breiðholti, Landakotsskóla, Fellaskóla og í Gerðubergi.
Móðurmál tóku þátt í Hringþingi um menntamál innflytjenda í sl.september og skipulögðu málþing um móðurmál en að segja það. Í nóvember sl. fór fram Vertu með! í Gerðubergi þar sem móðurmálshópar voru með sýningar – dans, leikrit, söng o.fl. Í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkurborgar heldur Móðurmál uppákomur suma laugardags- og sunnudagsmorgna, sem eru barnamorgnar, og á öðrum viðburðum kynna tvítyngd börn sín lifandi tungumál. Sl. febrúar héldu samtökin upp á Alþjóðlega móðurmálsdaginn á bókasafni í Gerðubergi.
Í samstarfi við Reykjavíkurborg höfum við einnig gefið út kennara- og foreldrabæklinga um tvítyngi sem er búið að dreifa í alla grunnskóla í Reykjavík. Bæklingarnir eru til á þrettán tungumálum og innihalda stutta kynningu á félaginu og grein um tvítyngi, sem og einfaldar upplýsingar og ráð um hvernig á að viðhalda móðurmálum barnanna.
Að styðja við móðurmál:
- Styrking beggja / allra tungumála sem barnið býr yfir er mikilvæg fyrir sjálfsmynd barnsins og eðlilegan þroska þess. Móðurmál er mikilvægt, það er lykill að samskiptum barns við foreldra, fjölskyldu og vini á Íslandi sem og annars staðar. Barnið upplifir sig frekar sem hluta af fjölskyldu sinni og menningu hennar sem og íslensku samfélagi ef það nær góðum tökum á móðurmáli sínu.
- Börn sem eru fær bæði í móðurmáli sínu og í íslensku eiga í flestum tilfellum auðveldara með að læra fleiri tungumál til viðbótar. Aukin tungumálafærni víkkar sjóndeildarhring barna, og möguleikar þeirra í námi og lífinu öllu verða fjölbreyttari.
Að styðja við móðurmál:
- Skólinn gegnir því mikilvæga hlutverki að kenna börnum íslensku. Á sama tíma gengst hann undir þá áskorun að styðja við öll móðurmál barnanna á margvíslegan hátt, t.d. með því að vekja athygli á tungumálum nemendanna í skólanum og að veita hinum tungumálunum virkan stuðning. Til þess geta kennarar notað ýmsar leiðir, einfaldar sem og flóknar og tímafrekar.
Hugmyndir:
- Útbúa plaköt með skrifum nemenda á hinum ýmsu tungumálum.
- Flétta upplýsingum um lönd nemendana inn í kennsluna, t.d. í samfélagsfræðslu og landafræði.
- Spila lög á fjölmörgum tungumálum.
- Hvetja nemendur til að skrifa á móðurmálinu.
- Hvetja alla nemendur til að leika sér að google.translate til að skoða hve mikið texti getur breyst í þýðingu.
- Læra nokkur orð á móðurmáli nemenda.
- Nota samvinnunámsleiðir svo að nemendur geti lært hver af öðrum og þá jafnvel um menningu og tungumál hvers annars.
- Skoða ásamt nemendum hvað er líkt með tungumálunum sem eru töluð af nemendum bekkjarins eða skólans.
- Finna orð sem eru lík eða eins, s.s. nöfn, heiti yfir tölustafi, siði, liti, ávexti, grænmeti, dagatöl, hátíðisdaga, vikudaga, mánuði, stafróf, málhljóð, hljóðgervinga og allt sem kennurum og nemendum dettur í hug.
- Athuga hvort við getum fundið fræga einstaklinga sem tala eða töluðu tungumál sem nemendur skólans eiga að móðurmáli.
- Leyfa nemendum sem eiga sameiginlegt móðurmál að aðstoða hvern annan á því máli í afmörkuðum verkefnum þegar við á.
- Spyrja nemendur hvort þeir þekki heiti yfir hin ýmsu hugtök sem þeir læra á íslensku og einnig á móðurmáli sínu.
- Leyfa nemendum að lesa sambærilegan texta á móðumáli – t.d. á Wikipedia, finnist hann þar.
- Leyfa nemendum að gera verkefni á móðurmáli sem eru sambærileg við þau sem aðrir nemendur vinna á íslensku.
- Verkefnin geta verið skrifleg, munnleg, tengd tónlist, leiklist, sjónræn eða blanda af þessu öllu.
- Gefa nemendum tækifæri til að ræða saman á móðurmáli um það sem þeir hafa lært.
- Láta nemendur velta fyrir sér hvað tungumál sé, hvernig maður lærir tungumál, hvernig maður kennir tungumál, hve mörg tungumál þeir þekkja, og hvort þeir þekkja tungumál sem spiluð eru fyrir þá.
Að axla ábyrgð;
- Það eru aðallega foreldrar sem bera ábyrgð á móðurmálsnámi barna sinna. Það er þó mjög stórt verkefni fyrir einn einstakling í nýju landi að kenna barninu heilt tungumál. Það tekst misjafnlega vel og margir þættir hafa áhrif á árangur.
- Að vera foreldri tvítyngdra barna felur í sér afar mikla ábyrgð. Foreldrar eru oftast einu fulltrúarhins framandi menningarsvæðis og þurfa að hugsa vel um það hvernig þeir kenna börnum sínum bæði tungumálið og ýmsar hliðar menningar sem ekki er til staðar.
- Móðurmálskennarar tvítyngdra barna, séu þeir fyrir hendi, bera einnig mikla ábyrgð. Móðurmálskennari skapar tækifæri til að umgangast jafnaldra með svipaðan bakgrunn og hann stjórnar samskiptum þeirra í móðurmálstímum. Hann kynnir fyrir börnum bæði tungumálið og menninguna og velur þau atriði sem honum finnst skipta mestu máli.
- Kennarar á öllum skólastigum, frá leikskóla upp í framhaldsskóla, bera sinn hlut af sameiginlegri ábyrgð á móðurmálsnámi barna. Þeir skapa ákveðið andrúmsloft í kennslustofum gagnvart „hinum“ tungumálunum. Að líta framhjá þeim gefur nemendum skýr skilaboð – „hin“ móðurmál eru ekki mikilvæg, þau eru hindrun, þau eru ekki til. Hins vegar geta kennarar nýtt sér einfaldar leiðir til þess að sýna tungumálum í stofunni og notendum þeirra virðingu, og það skiptir höfuðmáli, hvernig kennarinn hugsar og vinnur með móðurmál barnanna.
- Það er margt gott að gerast á sviði fjölmenningar og móðurmálskennslu á Íslandi um þessar mundir, menningarviðburðir, umræða í viðkomandi fagstéttum og stefnumótun skólakerfisins. Og þó – við þurfum enn meira. Við þurfum meiri stuðning við móðurmálskennara okkar og við þurfum að styðja við foreldra barnanna. Börn sem sækja móðurmálstíma þurfa að sjá að vinna þeirra sé metin og viðurkennd.
Ég vil hér með þakka öllum þeim einstaklingum og stofnunum sem leggja okkur lið í þessu áhugaverða málefni. Fyrir hönd barnanna, kærar þakkir ❤️
Heimildir:
Cinzia Fjóla Fiorini, kynning Meðvitund um tvítyngi.
Gerður Gestsdóttir, kynning Móðurmál – föðurmál – mín mál.
Hulda Karen Daníelsdóttir og Fríða B. Jónsdóttir. Fyrir kennara um mikilvægi móðurmáls, og Hvernig geta foreldrar stutt við móðurmál nemenda?
tungumaltorg.is